Stjórnarskrárbreytingar í fordæmalausu ástandi

SavarSkoðanapistill: Sævar Finnbogason skrifar:

Nú eru liðin rúmlega sjö ár frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp Stjórnlagaráðs, ný efnahagskreppa er að ganga í garð og enn er beðið eftir breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins.

Rannsóknarverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð hefur haldið utan um rökræðukönnun sem er hluti af því almenningssamráði sem almenningssamráði sem kveðið er á um í áætlun um endurskoðun stjórnarskrárinnar í áföngum yfir tvö kjörtímabil. Í nóvember síðastliðnum fór sjálfur rökræðufundurinn fram. Þar ræddu 230 slembivaldir Íslendingar um fimm málefni sem áætlunin gerir ráð fyrir að lokið verði við breytingar á í lok kjörtímabilsins 2018-2021. Þetta eru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, kaflinn um forseta lýðveldisins og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni er breytt. En auk þeirra á einnig að ljúka umfjöllun um þjóðareign á náttúruauðlindum og umhverfis- og náttúruvernd.

Á vefnum Betra Ísland fór einnig fram lýðvistun í aðdraganda rökræðukönnunarinnar

Þar sem ekki liggja enn fyrir fullmótaðar tillögur um neitt af þessu er ljóst að það er mikil vinna framundan ef Alþingi á að takast að klára þessa vinnu á því ári sem er til stefnu fram að alþingiskosningum 2021. 

Til að gera stöðuna enn snúnari er orðið ljóst að Covid-19 heimsfaraldurinn mun leiða djúprar efnahagskreppu, þeirrar dýpstu síðan kreppan mikla (e. Great Depression) geisaði á fyrri hluta síðustu aldar að mati Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og ljóst að áhrifin verða mikil á Íslandi. Efnahagskrísur leiða að vísu oft til endurmats á stjórnmálunum og valdastrúktúrum í samfélaginu líkt og gerðist á Íslandi í kjölfar hrunsins 2008. Munurinn á ástandinu nú og þá er einkum sá að þá skapist hávær krafa um víðtæka endurskoðun stjórnarskrárinnar sem átti að stórum hluta rætur í því vantrausti í garð stjórnmálanna sem blossaði upp í kjölfar hrunsins. 

Nú erum við hinsvegar stödd í miðri á og sú efnahagskreppa sem nú er framundan er í raun engum að kenna nema veiruófétinu. Þetta er eins og oft hefur verið sagt, fordæmalaust ástand, þar sem einn af burðarásum efnahagslífsins á Íslandi hefur bókstaflega þurrkast út og fjöldi manns misst vinnuna með afleiðingum sem munu bergmála um allt hagkerfið.

Einhverjir segja ef til vill að við þessar aðstæður geti stjórnarskrárbreytingar varla verið fólki ofarlega í hug og framkvæmdavaldið og löggjafinn eigi að einbeita sér að þessu neyðarástandi. En sem betur fer getur Alþingi Íslendinga sinnt fleiru en einu í einu. 

Heimsfaraldurinn breytir því ekki sem öll sú umræða sem farið hefur fram síðustu tólf árin, þjóðaratkvæðagreiðslan 2012, margar skoðanakannanir síðan og rökræðukönnunin sem stjórnvöld sjálf stóðu fyrir, sýna að þessi mál brenna flest á þjóðinni. Það yrði því sorglegt ef enn eitt kjörtímabilið liði án þess að stjórnmálaflokkarnir gætu breytt stjórnarskránni í samræmi við það. Stjórnmálaflokkarnir gætu afstýrt því með því að koma sér saman um að afgreiða í það minnsta tillögur um mikilvægar stjórnarskrárbreytingar eins og ákvæði um náttúruauðlindir, þjóðaratkvæði og löggjafarfrumkvæði borgara fyrir næstu Alþingiskosningar. Það myndi efla tiltrú á að Alþingi sem hefur legið undir því ámæli að ráða hreinlega ekki við það verkefni að breyta stjórnarskránni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *